Þórunn Ósk Marinósdóttir
Víóluleikari
Þórunn Ósk Marinósdóttir er leiðari víóludeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún er fædd og
uppalin á Akureyri þar sem hún stundaði fiðlunám, lengst af hjá Lilju Hjaltadóttur. Hún lauk
Mastersprófi í víóluleik við Konunglega Tónlistarháskólann í Brussel undir handleiðslu Ervin
Schiffer. Í Belgíu var hún m.a. leiðari víóludeildar kammerhljómsveitarinnar Prima la Musica og um
tíma meðlimur í flæmsku hljómsveitinni I Fiamminghi.
Þórunn hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Prima la Musica,
Kammersveit Reykjavíkur, Caput og Sumida Triphony Hall Orchestra í Tokýó.
Þórunn kennir víóluleik og kammermúsík við Menntaskóla í tónlist og Listaháskóla Íslands auk
þess sem hún kennir árlega á sumarnámskeiði Alþjóðlegu Tónlistarakademíuna í Hörpu (HIMA).
Hún spilar mikið af kammermúsík og er reglulegur gestur Kammermúsíkklúbbsins og
tónlistarhátíða í Reykjavík og víðar. Þórunn hefur verið listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar frá
árinu 2021 ásamt eiginmanni sínum Sigurði Bjarka Gunnarssyni sellóleikara.
Árið 2012 stofnaði hún Strokkvartettinn Sigga ásamt félögum sínum í kvartettinum en hann hlaut
Íslensku tónlistarverðlaunin 2018 sem flytjandi ársins. Auk þess hlaut hljóðrit kvartettsins af öllum
kvartettum Atla Heimis Sveinssonar verðlaunin fyrir hljóðritun ársins 2023.
Plötuútgáfan Smekkleysa hefur gefið út hljóðritanir þar sem Þórunn leikur einleik með
Kammersveit Reykjavíkur í víólukonsertinum Ombra eftir Hafliða Hallgrímsson og einnig í
Dagbókarbroti fyrir víólu og píanó eftir sama höfund. Hún hefur sömuleiðis spilað inn á fjölda
hljóðritana á kammertónlist, oftast undir merkjum Kammersveitar Reykjavíkur.